Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 658. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1626  —  658. mál.

3. umræða.


Breytingartillaga



við frumvarp til laga um veiðigjöld.

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar (KLM, BVG, ÞBack, SER, SII).


     1.      Við 4. gr.
                  a.      Í stað orðanna „og gera tillögu um undanþágu frá álagningu sérstaks veiðigjalds“ í 1. mgr. komi: og gera tillögur um lækkun sérstaks veiðigjalds eða undanþágur frá greiðsluskyldu þess.
                  b.      Við bætist þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                      Ráðherra skal gera þjónustusamninga, um öflun og úrvinnslu upplýsinga um rekstur og afkomu veiða og vinnslu sem veiðigjaldsnefnd þarf til að sinna hlutverki sínu, við embætti ríkisskattstjóra, Fiskistofu og Hagstofu Íslands að teknu tilliti til verkefna þessara stofnana og þeirra lagaákvæða og starfsreglna sem um starfsemi þeirra gilda að öðru leyti. Fyrir þann hluta verkefnanna sem fellur utan lögbundinna verkefna Hagstofu Íslands og ríkisskattstjóra skal greitt úr ríkissjóði.
                      Veiðigjaldsnefnd skal viðhafa viðvarandi könnun á því hvort haga megi öflun upplýsinga og úrvinnslu gagna þannig að sérgreina megi útreikning rentu frekar en gert er ráð fyrir í lögum þessum, t.d. eftir fisktegundum, útgerðarformum eða tegund aflaheimilda, og gera tillögur til ráðherra um breytingar á lögum, reglum eða þjónustusamningum telji hún tilefni til. Að sama skapi skal nefndin kanna útfærslur gjaldstofns veiðigjalda og hlutfall sérstaks veiðigjalds af gjaldstofni. Veiðigjaldsnefnd getur í þessum tilgangi efnt til samstarfs við sérfræðinga og fagaðila á sviði útgerðar og fiskvinnslu.
                      Áður en veiðigjaldsnefnd ákvarðar sérstakt veiðigjald skal hún leita álits samráðsnefndar um veiðigjöld um fyrirhugaða ákvörðun sína.
     2.      Á eftir 4. gr. komi ný grein, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Samráðsnefnd um veiðigjöld.

                 Alþingi kýs nefnd fimm þingmanna til að fjalla um fyrirhugaðar ákvarðanir veiðigjaldsnefndar um sérstakt veiðigjald.
     3.      Við 1. mgr. 6. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Afli veiddur utan fiskveiðilandhelgi Íslands sem ekki fellur undir samninga við önnur ríki telst þó ekki gjaldstofn sérstaks veiðigjalds.
     4.      Í stað tölunnar „8“ í fyrri málslið 7. gr. komi: 9,50.
     5.      Við 8. gr.
                  a.      Í stað hlutfallstölunnar „70%“ í síðari málslið 1. mgr. komi: 65%.
                  b.      Í stað orðanna „hvert skip“ í 2. mgr. komi: hvern gjaldskyldan aðila, sbr. 6. gr.
                  c.      3. mgr. orðist svo:
                      Leggi veiðigjaldsnefnd til við ráðherra að hann lækki sérstakt veiðigjald eða veiti undanþágur frá greiðsluskyldu þess skal ráðherra leggja frumvarp þar að lútandi fyrir Alþingi.
     6.      Við 9. gr.
                  a.      Síðari málsliður 3. mgr. orðist svo: Reiknaðri rentu í vinnslu uppsjávarafla skal að 80/ 100 hlutum jafnað á þorskígildi afla í uppsjávarveiðum að viðbættum uppsjávarafla sem keyptur var til vinnslu af erlendum fiskiskipum eða fluttur inn með öðrum hætti.
                  b.      Síðari málsliður 5. mgr. orðist svo: Reiknaðri rentu í vinnslu botnfisks skal að 80/ 100 hlutum jafnað á þorskígildi afla í botnfiskveiðum að viðbættum botnfiskafla sem keyptur var til vinnslu af erlendum fiskiskipum eða fluttur inn með öðrum hætti.
                  c.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Sé renta reiknuð fyrir vinnslu sem nær til beggja aflaflokka, botnfiskafla og uppsjávarafla, skal henni skipt á milli aflaflokkanna í hlutfalli við þorskígildi hvors flokks um sig.
     7.      Við 10. gr.
                  a.      3. mgr. orðist svo:
                      Söluverðmæti afla og afurða skal byggjast á upplýsingum sem Hagstofa Íslands vinnur árlega úr skattframtölum og aflar frá fyrirtækjum í fiskveiðum og fiskvinnslu, ásamt upplýsingum frá Fiskistofu, að teknu tilliti til breytinga á verðvísitölu sjávarafurða fyrir botnfiskafla annars vegar og uppsjávarafla hins vegar frá meðaltali þess tekjuárs sem framtölin byggjast á til meðaltalsins janúar til apríl fyrir ákvörðun veiðigjaldsins ár hvert.
                  b.      4. mgr. orðist svo:
                      Rekstrarkostnaður sem kemur til frádráttar, sbr. 1. mgr., skal byggjast á upplýsingum sem Hagstofa Íslands vinnur árlega úr skattframtölum og aflar frá fyrirtækjum í fiskveiðum og fiskvinnslu, ásamt upplýsingum frá Fiskistofu, að teknu tilliti til breytinga á verðvísitölu sjávarafurða fyrir botnfiskafla annars vegar og uppsjávarafla hins vegar frá meðaltali þess tekjuárs sem framtölin byggjast á til meðaltalsins janúar til apríl fyrir ákvörðun veiðigjaldsins ár hvert. Til rekstrarkostnaðar í þessu samhengi teljast ekki veiðigjöld sem lögð eru á samkvæmt lögum þessum.
                  c.      Í stað orðanna „áætlað verðmæti þeirra í lok tekjuárs, 8% í fiskveiðum, en 10% í fiskvinnslu“ í 1. málsl. 5. mgr. komi: 8% af áætluðu verðmæti þeirra í lok tekjuárs.
                  d.      Í stað orðanna „meðaltali tekjuárs skattframtals“ í lokamálslið 5. mgr. komi: meðaltali stofnárs samkvæmt skattframtali.
                  e.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Sé reiknuð renta í botnfiskveiðum eða uppsjávarveiðum, eins og hún er ákvörðuð samkvæmt þessari grein, lægri en 0 skal heimilt að draga hana frá við útreikning sambærilegrar rentu á næsta ári eða síðar í allt að fimm ár.
     8.      Á eftir 10 gr. komi ný grein, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Rentugrunnur.

                 Reikna skal og birta árlega grundvöll útreiknings reiknaðrar rentu í fiskveiðum og fiskvinnslu skv. 11. gr.
                 Í þeim tilgangi skal afla upplýsinga um tekjur af fiskveiðum og fiskvinnslu, þ.e. söluverðmæti sjávarafla og sjávarafurða, og tekjur af sölu og leigu aflaheimilda, svo og um kostnað af þeirri starfsemi, þ.e. rekstrarkostnað, fjármagnskostnað og afskriftir rekstrarfjármuna. Meðal þess sem koma skal fram eru birgðir og verðmæti þeirra, stofnverð og bókfært verð fasteigna, skipa og annarra rekstrarfjármuna og afskriftir þeirra, vátryggingarverðmæti skipa, óefnislegar eignir, þar á meðal keyptar aflaheimildir, og niðurfærsla þeirra. Upplýsingarnar skulu flokkaðar eftir tegund veiða og fiskstofnum, svo og stærð og tegund skipa, eftir því sem nánar er ákveðið í reglugerð. Upplýsinganna skal aflað úr skattframtölum og reikningum fyrirtækja í fiskveiðum og fiskvinnslu og öðrum gögnum frá þeim, frá tryggingafélögum og frá Fiskistofu.
                 Heildartölur og sundurgreining þeirra eftir flokkum skulu birtar opinberlega fyrir hvert almanaksár og eigi síðar en 12 mánuðum eftir lok þess.
                 Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um útreikning og birtingu rentugrunns.
     9.      Við 12. gr.
                  a.      1. málsl. 2. mgr. orðist svo: Gjöld vegna aflamarks sem úthlutað er 1. september falla í gjalddaga með fjórum jöfnum greiðslum ár hvert, þ.e. 1. október sama árs, 1. janúar, 1. apríl og 1. júlí næsta árs.
                  b.      Lokamálsliður 2. mgr. falli brott.
                  c.      Í stað orðsins „gjalddaga“ í fyrri málslið 5. mgr. komi: eindaga.
                  d.      Í stað síðari málsliðar 5. mgr. komi tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Kröfum um greiðslu veiðigjalda fylgir lögveð ríkissjóðs í hlutaðeigandi skipi. Lögveðið nær einnig til vaxta og innheimtukostnaðar af kröfunni ef því er að skipta.
                  e.      Við 6. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sérstakt veiðigjald sem innheimt hefur verið vegna úthlutaðs aflamarks skal endurgreitt á sama hátt að því marki sem það hefur ekki verið nýtt með veiðum, leigu eða öðrum hætti.
     10.      15. gr. orðist svo:
                 Lög þessi öðlast þegar gildi.
     11.      Ákvæði til bráðabirgða orðist svo:
                 Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 9. gr. skal sérstakt veiðigjald vera með eftirfarandi hætti:
                  a.      23,20 kr. á hvert þorskígildiskíló í botnfiskveiðum og 27,50 kr. á þorskígildiskíló í uppsjávarveiðum á fiskveiðiárinu 2012/2013.
                  b.      50% af stofni til útreiknings á gjaldinu á fiskveiðiárinu 2013/2014 að frádregnu almennu veiðigjaldi sama fiskveiðiárs.
                  c.      55% af stofni til útreiknings á gjaldinu á fiskveiðiárinu 2014/2015 að frádregnu almennu veiðigjaldi sama fiskveiðiárs.
                  d.      60% af stofni til útreiknings á gjaldinu á fiskveiðiárinu 2015/2016 að frádregnu almennu veiðigjaldi sama fiskveiðiárs.
     12.      Við bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                 Á fiskveiðiárunum 2012/2013 til 2017/2018 skal félag eða einstaklingur með atvinnurekstur sem greiða skal sérstakt veiðigjald skv. 13. gr. eiga rétt á lækkun þess vegna vaxtakostnaðar við kaup á aflahlutdeildum til ársloka 2011 samkvæmt þessu ákvæði enda séu eftirfarandi skilyrði uppfyllt:
                  a.      Keypt aflahlutdeild sé enn í höndum viðkomandi og hann hafi greitt veiðigjöld af aflamarki samkvæmt henni fyrir viðkomandi fiskveiðiár.
                  b.      Vaxtaberandi skuldir viðkomandi í árslok 2011 samkvæmt skattframtali hans fyrir það ár án bókfærðra tekjuskattsskuldbindinga og að frádregnum peningalegum eignum séu hærri en svarar 4% af bókfærðu verðmæti ófyrnanlegra eigna samkvæmt framtali fyrir sama ár.
                 Séu skilyrði 1. mgr. uppfyllt skal lækka sérstakt veiðigjald á hverju fiskveiðiári frá 2012/2013 til 2017/2018 um sem nemur vaxtagjöldum samkvæmt skattframtali fyrir árið 2011 í sama hlutfall og skuldir skv. b-lið 1. mgr. eru sem hlutfall af vaxtaberandi skuldum í heild eftir að frá þannig reiknuðum vaxtagjöldum hafa verið dregin 4% af reiknuðu stofnverði rekstrarfjármuna, sbr. b-lið 1. mgr. Lækkunin skal þó aldrei vera meiri en sem svarar 4% af bókfærðu verðmæti ófyrnanlegra eigna samkvæmt skattframtali fyrir sama ár.
                 Fjárhæð til lækkunar veiðigjaldsins skal taka breytingu samkvæmt vísitölu neysluverðs frá desember 2011 til desembermánaðar næst fyrir upphaf viðkomandi fiskveiðiárs.
                 Taka skal tillit til vaxtakostnaðar vegna kaupa á aflahlutdeildum á árinu 2012 sem gerð hafa verið fyrir gildistöku laganna með sama hætti og gildir um fyrri ár.
                 Taka skal tillit til skulda vegna kvótakaupa sem eru ekki hjá handhafa aflahlutdeildanna sem greiðir veiðigjöldin.
                 Ráðherra setur reglugerð um nánari framkvæmd þessa ákvæðis.